56 nýjar íbúðir rísa við Klaustur- og Kapellustíg

17.04.2020

Byggingafélag námsmanna hefur samið við verktakafyrirtækið Eykt ehf. um að byggja 56 nýjar námsmannaíbúðir á lóð félagsins við Klaustur- og Kapellustíg í Reykjavík. 

Um er að ræða 36 einstaklingsíbúðir og 20 tveggja herbergja íbúðir í fjórum húsum. Byggingarnefndarteikningar liggja fyrir og munu framkvæmdir hefjast strax í maí á þessu ári og er gert ráð fyrir að fyrstu íbúðirnar verði teknar í notkun í ágúst 2021 en verkinu verði að fullu lokið í júlí 2022.

Íbúðirnar eru fjármagnaðar með stofnframlagi frá Reykjavíkurborg og Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun, f.h. ríkisins og byggðar skv. reglum um almennar íbúðir. Samningsupphæð nemur tæpum 1.200 milljónum króna en heildarkostnaður verkefnisins er áætlaður um 1,5 milljarðar króna.

Aðalhönnuðir verksins eru Arkís arkitektar en samstarfsaðilar þeirra í verkefninu eru Víðsjá, Landhönnun, Lota og Mannvit.

Á myndinni eru Böðvar Jónsson framkvæmdastjóri Byggingafélagsins og Páll Daníel Sigurðsson, framkvæmdastjóri Eyktar við undirritun samningsins. 

Til baka