Beint á efnisyfirlit síðunnar

Upplýsingar

Umsóknir
Umsóknum um íbúðir þarf að skila með rafrænum hætti á umsóknarformi sem er að finna undir flipanum "Umsókn" í aðalvalmynd heimasíðunnar. Allir námsmenn geta sótt um en þó hafa aðildarskólar forgang. Hægt er að setja inn umsóknir allan ársins hring og er úthlutað hvenær sem laust er.

Biðlistar
Athugið að biðlistar geta breyst vegna eftirfarandi atriða :
- Umsækjendur um framhaldsleigu fara fremst í röðina á meðan umsókn er afgreidd en detta út af listanum þegar gengið hefur verið frá nýjum samningi.
- Umsækjendur í aðildarskólum Byggingafélagsins raðast fremst í röðina, á eftir umsækjendum um framhaldsleigu.
- Umsækjendur um flutning innan kerfis raðast í þriðja hver sæti.
- Námsmenn annarra skóla raðast á eftir aðildarskólum.
- Erlendir nemendur raðast á eftir öðrum skólum.

Úthlutun
Húsnæði Byggingafélags námsmanna er almennt úthlutað til eins árs í senn.  Stuðst er við úthlutunarreglur Byggingafélags námsmanna við úthlutun húsnæðis (sjá reglur undir flipanum umsókn). Skrifstofa Byggingafélags námsmanna sendir umsækjendum tilkynningu um úthlutun eða biðlistanúmer með rafrænum hætti á það tölvupóstfang, sem skráð er á umsóknina. Úthlutun og veru á biðlista skal staðfesta á heimasíðu Byggingafélags námsmanna fyrir tiltekinn tíma.  Úthlutað er allan ársins hring.

Samningar / Gjaldskrá
Úthlutunarhafi (leigutaki) skrifar undir leigusamning áður en húsnæðið er afhent. Samningarnir eru alltaf gerðir til eins árs í senn og endurnýjast að þeim tíma liðnum að uppfylltum skilyrðum úthlutunarreglna (sjá reglur undir Umsóknir).  Undirriti leigutaki ekki nýjan samning  innan uppgefins tímafrests verður samningurinn ekki endurnýjaður og íbúð úthlutað til nýrra leigutaka.
Til að geta gengið frá samningi þarf að skila inn staðfestingu á skólavist og tryggingu sem jafngildir þriggja mánaða leigu. Er annað hvort hægt að leggja tryggingafé inn á vörslufjárreikning Byggingafélagsins eða skila inn bankaábyrgð. Athugið að tryggingin er ekki fyrirframgreiðsla á leigu heldur er skilað í lok leigutíma, eftir að úttekt hefur farið fram og leigjandinn hefur staðið í skilum. Senda þarf póst á bn@bn.is til að fá bankaábyrgðina senda tilbaka eða vörsluféð greitt.

Aukaafrit af leigusamningi kostar 1.000 kr.
Umsýslugjald fyrir hvern stofnaðan samning og fyrir endurnýjun samnings og framlengdan er 5.000 kr.
Milliflutningsgjald er 12.500 kr.
Aukalykill kostar 3.000 kr. og aukapóstlykill kostar 1.500 kr.

Vinsamlegast athugið að það er bannað með öllu að geyma rusl á sameiginlegum stigagangi - ef umsjónarmenn sjá ruslapoka fyrir utan íbúðir verður hann fjarlægður á kostnað íbúa.

Búnaður í íbúðum 
Engin húsgögn eru í íbúðum félagsins en í íbúðum á Klausturstíg, Kapellustíg, Bjarkavöllum og Skipholti fylgir lítill ísskápur. Hægt er að fá eldhúsborð að láni.

Hólfin í innréttingum fyrir ísskápa eru í þessum stærðum :

Bólstaðarhlíð : hæð 178

Háteigsvegur : hæð 184

Naustabryggja : hæð 160

Kristnibraut : hægt er að breyta hæðinni 

Flutt í nýtt húsnæði
Áður en flutt er inn þurfa leigjendur að senda póst á bn@bn.is og fá uppgefið hvenær húsnæðið er tilbúið til afhendingar. Umsjónarmaður fasteigna gerir úttekt á húsnæðinu við hver leigjendaskipti og skrifar nýr leigjandi undir úttekt umsjónarmanns, þar sem hann samþykkir ástand húsnæðisins. Leigjandi fær síðan 7 daga frest til að gera athugasemdir við úttektina og er þeim skilað í gegnum heimasvæði leigjandans.  Að þeim tíma liðnum er litið svo á, að úttekt umsjónarmanns sé samþykkt.

Uppsögn/skil á húsnæði
Húsnæði er sjálfkrafa sagt upp við lok leigusamnings. Þeir sem hyggjast leigja áfram eftir að samningstímabili lýkur, þurfa að biðja um framlengingu samnings þremur mánuðum fyrir lok leigutímans.  Ef húsnæði er sagt upp áður en leigutíma lýkur skal nota þar til gert uppsagnarform á heimasvæði leigjandans. Byggingafélag námsmanna áskilur sér rétt á þriggja mánaða uppsagnafresti á leigutímabilinu. Uppsagnarfrestur styttist ef skrifstofa Byggingafélags Námsmanna getur að beiðni leigjanda útvegað nýjan íbúa fyrr en sú beiðni þarf að berast skriflega á bn@bn.is, en fresturinn verður þó aldrei styttri en einn mánuður frá uppsögn. Ekki er hægt að draga uppsögn tilbaka sé nýr leigjandi búinn að taka við samningi.
Hægt er að sækja um flutning innan kerfis eftir hálft ár í leigu hjá Byggingafélaginu. Til þess þarf að setja inn nýja umsókn á  www.bn.is.

Húsaleigubætur
Hægt er að sækja um húsaleigubætur vegna leigu á öllu húsnæði Byggingafélags námsmanna en leigusamningar þurfa að gilda í lágmark 6 mánuði. Leigjendur sækja sjálfir um húsaleigubæturnar á www.husbot.is. Athugið að ekki þarf að þinglýsa samningnum.

Þegar íbúðum er skilað

 

1.      Íbúð þarf að þrífa á hefðbundinn hátt. Veggi og loft þarf að þvo.

2.      Gólfdúka á að þvo og bóna, partketgólf skal þvo vel með sérstökum parketþvottalegi.

3.      Eldavél og bakaraofn skal þrífa vel, bæði að innan og utan ásamt fylgihlutum s.s. grindum og skúffum. Affrysta þarf ísskápinn og þrífa hann vel, líka á bakvið. Best er að hafa hann í sambandi og í gangi við skil.

4.      Viftu skal opna og þrífa að innan og skipta um filter. Filter fæst t.d. hjá Ormsson í Ármúla.

5.      Hreinlætistæki, krana og blöndunartæki skal þrífa vel með til þess gerðum efnum og hreinsa af kísil. Gott er að eiga gúmmí sköfu til að skola sturtuklefann reglulega með köldu vatni og halda honum þannig hreinum.

6.      Nauðsynlegt er að þrífa vel niðurföll á baði, bæði í sturtu og undir vaski.

7.      Glugga skal þvo að innan og að utan þar sem það er hægt.

8.      Allar perur skulu vera virkar í ljósum. Best er að kaupa litlu kringlóttu perurnar í undirskápa ljósunum hjá Ikea eða Rafkaup.

9.      Skila þarf öllum þeim lyklum sem leigjandi hefur haft.

 

 

Munið eftir að tilkynna flutning ykkar til viðkomandi aðila, eins og Pósturinn, Hagstofan o.fl.