Úthlutunarreglur fyrir stúdentaíbúðir Háskólans í Reykjavík að Nauthólsvegi 83 og 85, 102 Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík (hér eftir skammstafað HR) á og rekur umrætt húsnæði, sem skráð er á heimasíðu Byggingafélag námsmanna (hér eftir skammstafað BN), bn.is.
Byggingafélag námsmanna sér um umsýslu og eftirlit með útleigu íbúðanna f.h. HR.
1. kafli. Almenn skilyrði.
1.1 Réttur til búsetu.
Rétt til að sækja um, fá úthlutuðu og halda húsnæði hjá HR hafa þeir sem falla undir skilyrði úthlutunarreglna þessara. Þeir einir geta hlotið úthlutun sem stunda reglulegt nám við HR, sýna eðlilega námsframvindu, standa í skilum og hlíta húsreglum og öðrum þeim reglum sem HR setur um umgengni o.fl. í húsnæði félagsins. Einungis er unnt að hafa eina umsókn virka á hverja kennitölu.
1.1.1 Íslenskir nemendur
Um íslenska nemendur gilda þær reglur að forgangs til úthlutunar sem ekki eiga lögheimili á höfuðborgarsvæðinu sé einn af hverjum fjórum. Þetta hlutfall endurskoðast eftir því sem íbúðum fjölgar.
1.1.2 Erlendir nemendur
Tiltekinn fjöldi erlendra nemenda skulu njóta forgangs við úthlutun 20 leigueininga; einstaklingsherbergja með sameiginlegri aðstöðu og einstaklingsíbúð.
1.1.3 Tekju- og eignarmörk
Íbúðir HR við Nauthólsveg eru byggðar á grundvelli laga um almennar íbúðir nr. 52/2016. Leigjendur skulu vera undir tekju- og eignamörkum sbr. 10. grein laganna og reglugerðar nr. 183/2020 með síðari breytingum. Lýsa leigjendur því yfir við gerð umsóknar að þeir séu undir framangreindum viðmiðunarmörkum.
1.2 Aðildarskólar.
Nemendur Háskólans í Reykjavík hafa forgang, en nemendur annarra háskóla og annarra hafa rétt til búsetu eftir því sem úthlutunarreglur þessar segja til um. Dæmi eru Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Listaháskóli Íslands og Tækniskólinn.
1.3 Úthlutun og forgangur við úthlutun.
Samþykktum umsóknum um íbúðir og herbergi er raðað í forgang samkvæmt úthlutunarreglum þessum.
1.4. Eðlileg námsframvinda o.fl.
1.4.1. Eðlileg námsframvinda.
HR er heimilt að gera kröfu um að umsækjendur/leigutakar, sem hafið hafa nám, sýni eðlilega námsframvindu, en eðlileg námsframvinda telst vera að umsækjandi hafi lokið á hverju ári, eða misseri, ef við á, a.m.k. 2/3 hlutum þess náms sem viðkomandi deild/skóli telur vera eins árs, eða eins misseris, nám.
1.5. Undanþáguóskir umsækjanda.
Óski umsækjandi eftir að HR veiti undanþágu frá þessum reglum vegna félagslegra aðstæðna skal hann, með umsókn sinni, skila umsögn frá félagsmálanefnd í viðkomandi sveitarfélagi. Við mat á félagslegum aðstæðum skal meðal annars líta til núverandi húsnæði umsækjenda, fjölda barna, heilsufars og vinnugetu. Afgreiðsla undanþágubeiðna fer skv. grein 10.2.
2. kafli. Leigutími.
2.1 Tímabundnir leigusamningar.
Leigusamningar um húsnæðið eru ætíð tímabundnir.
2.1.2 Einstaklingsherbergi/íbúðir, para- og fjölskylduíbúðir
Einstaklingar geta sótt um einstaklingsherbergi, einstaklingsíbúðir eða tvíbýli. Barnlaus pör geta sótt um paríbúðir. Séu báðir umsækjendur í fullu námi í HR njóta þeir forgangs umfram aðra umsækjendur og skulu báðir uppfylla skilyrði um einingar, sjá nánar grein 7.2. Stúdentar með barn/börn geta sótt um 2-3 herbergja íbúðir.
Foreldri með sameiginlegt forræði með barni/börnum þar sem lögheimili barns/barna er hjá hinu foreldrinu, getur einnig sótt um undanþágu fyrir fjölskylduíbúð og fer afgreiðsla sbr. grein 10.2. Skila þarf inn staðfestingu frá sýslumannsembætti um sameiginlegt forræði. Í sérstökum tilfellum er hægt að taka tillit til umgengnissamnings, gefi slíkur samningur rétta mynd af fjölskylduhögum umsækjanda.
2.2. Leigutími
2.2.1. Leigusamningar eru gerðir til eins árs í senn.
Leigutaki og leigusali eru bundnir af samningi út leigutímabilið, leigutakar geta þó sagt honum upp með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara, frá næstu mánaðarmótum að telja. Leigusali getur þó samþykkt skemmri fyrirvara séu sérstakar ástæður fyrir hendi, þó ekki skemmri en einn mánuð frá uppsögn.
Við úthlutun herbergja er heimilt að gera samninga til skemmri tíma, einkum ef um er að ræða erlenda nemendur sem dveljast hér hluta úr ári.
2.3. Hámarksdvöl.
Hámarksdvöl í húsnæði HR getur lengst orðið jafnlöng eðlilegum námstíma viðkomandi náms, að frádregnum þeim námseiningum sem lokið er þegar umsækjandi fær úthlutað húsnæði hjá HR í fyrsta sinn, þó ekki lengur en sex ár. HR getur veitt undanþágu í samræmi við ákvæði reglna þessara. Endurskráning í nám lengir ekki hámarksdvöl miðað við fyrra nám.
3. kafli. Um umsóknir, umsóknarfresti o.fl.
3.1. Skil umsókna.
3.1.1. Hvernig sótt er um húsnæði.
Sækja skal um íbúð eða herbergi á umsóknarformum sem birt eru á heimasíðu BN (www.bn.is) og er einungis tekið við umsóknum í rafrænu formi.
3.1.2. Umsóknir og biðlistar.
Samþykktar umsóknir fara á viðeigandi biðlista, innan forgangshóps, samkvæmt reglum þessum, í þeirri röð sem þær berast. Biðlistar eru þeir sem greint er frá í kafla 6.
3.1.3. Móttaka umsókna.
Dagsetning og tími sem umsókn er móttekin eru skráð rafrænt í umsóknarkerfi BN.
Öll samskipti umsækjanda og BN fara fram með rafrænum hætti í gegnum það netfang sem uppgefið er á umsókninni. Hafi umsækjandi athugasemdir við mat umsóknar eða úthlutun skal hann skila athugasemd til BN innan fimm daga frá samþykkt umsóknar eða frá því að úthlutun var gerð.
3.2. Umsóknartímabil.
3.2.1. Umsóknarfrestir almennt.
Umsóknum um húsnæði skal skila á rafrænu formi á heimasíðu Byggingafélags námsmanna, bn.is. Umsækjandi ber ábyrgð á að umsókn sé rétt útfyllt og staðfest með tilvísunarnúmeri.
3.2.2. Umsókn um endurúthlutun.
Leigutökum, sem óska eftir endurúthlutun húsnæðis, er skylt að skila inn rafrænni umsókn á heimasíðu BN,bn.is., þremur mánuðum fyrir lok gildandi leigusamnings.
3.2.3. Umsóknir nýnema.
Nýnemar geta sótt um frá 1. júní ár hvert, eftir að þeir hafa skráð sig til náms í þeim skólum, sem taldir eru upp í gr. 1.2. í reglum þessum, og umsókn þeirra verið samþykkt af viðkomandi skóla. Liggi staðfesting um skólavist fyrir á öðrum tíma er viðkomandi heimilt að sækja um húsnæði.
3.3. Heimild til að sannreyna upplýsingar.
Með því að skila inn umsókn heimilar umsækjandi BN að sannreyna þær upplýsingar, sem fram koma á umsókn eða fylgigögnum hennar. Því er BN m.a. heimilt að afla upplýsinga hjá Þjóðskrá, Hagstofu Íslands, viðkomandi skóla og skattayfirvöldum til að sannreyna tekju- og eignamörk.
4. kafli. Umsóknum sem er heimilt eða skylt að vísa frá.
4.1. Ófullnægjandi umsóknir.
Heimilt er að vísa umsókn frá ef hún er talin ófullnægjandi á einhvern hátt eða ef upplýsingar sem fram koma í umsókn reynast rangar. Í slíkum tilvikum fellur umsóknin út úr umsóknarkerfi BN og er því hafnað.
4.2 Rangar upplýsingar.
4.2.1. Fyrir úthlutun.
Ef upplýsingar sem fram koma í umsókn eða fylgigögnum reynast rangar skal umsókn vísað frá. Heimilt er að vísa umsókn frá ef hún er talin ófullnægjandi á einhvern hátt eða ef upplýsingar sem fram koma í umsókn reynast rangar. Þá skal umsókn vísað frá ef umsækjandi stundar ekki nám við HR eða aðildarskóla.
4.2.2. Eftir úthlutun.
Komi í ljós eftir að úthlutun hefur farið fram, en áður en leigusamningur er gerður, að upplýsingar er koma fram í umsókn eða fylgigögnum reynist rangar fellur úthlutun þar með úr gildi. Hafi leigusamningur, í slíku tilfelli, verið undirritaður fellur leigusamningur úr gildi þegar í stað. Hafi íbúð/herbergi verið veitt viðtöku er leigutaka skylt að rýma húsnæðið þegar í stað eftir að honum berst skrifleg tilkynning um riftun frá BN hafi hann verði veitt herbergi/íbúð viðtöku.
4.3. Óskilvísi umsækjanda.
Umsókn er ekki samþykkt ef umsækjandi skuldar húsaleigu í einn mánuð eða meira vegna vistar sinnar. Eins er heimilt að vísa frá umsókn ef að umsækjandi hefur áður dvalið í stúdentaíbúð en verið vísað frá sökum vanefnda á samningi, skorts á einingum eða vanskila. Umsóknum um milliflutning í stærri íbúð verður vísað frá, sé umsækjandi í vanskilum. Gildir ákvæði þetta jafnframt um endurnýjun/framlengingu leigusamninga og nýja leigusamninga.
4.4. Brot á reglum.
Hafi umsækjanda verið vísað úr húsnæði vegna brota á lögum eða reglum, er heimilt að vísa umsókn hans frá. Fari fram ólögmæt starfsemi í íbúðinni af hálfu leigjanda eða einhvers á hans vegum skal heimilt að segja leigusamningi samstundis upp og leigutaka gert að rýma íbúðina þegar í stað frá því að honum barst skrifleg áskorun þar að lútandi.
5. kafli. Meðferð umsókna og samskipti umsækjenda við BN.
5.1. Umsýsla.
Skrifstofa BN annast öll samskipti og alla umsýslu varðandi umsóknir, m.a. móttöku umsókna og fylgigagna, samþykkt umsókna, frávísun og röðun umsókna í forgang samkvæmt ákvæðum úthlutunarreglna þessara fyrir hönd Háskólans í Reykjavík.
5.2. Gild umsókn.
Þegar umsókn hefur hlotið samþykki fer umsóknin inn á biðlista, sem valinn er, sbr. kafla 6., en umsækjandi þarf að staðfesta hana reglubundið samkvæmt gr. 5.4.
5.3. Rafræn samskipti.
Öll samskipti umsækjanda og BN fara fram með rafrænum hætti á því netfangi sem umsækjandi gefur upp í umsókn.
5.4. Reglubundin staðfesting á að umsókn sé í gildi.
Þegar umsókn hefur hlotið samþykki, þarf umsækjandi að staðfesta, á tímabilinu 1. til 5. dag hvers mánaðar, að umsókn hans sé í gildi á viðkomandi biðlista. Vakin er athygli á að ef umsókn er ekki staðfest í samræmi við framangreint eyðist hún sjálfkrafa úr umsóknarkerfinu og fellur þá umsækjandi út af biðlista.
5.5. Umsækjandi fær tilboð um úthlutun á húsnæði.
Hafi umsækjandi fengið úthlutað húsnæði skal hann staðfesta samþykki sitt innan 48 klukkustunda frá úthlutun. Hafi slík staðfesting ekki borist innan tilskilins frests fellur úthlutunin niður. Við undirritun samnings þarf leigjandi að greiða óafturkræft umsýslugjald (sjá gr. 5.6), sem er innheimt á fyrsta leiguseðli hvers leigutímabils skv. gjaldskrá BN og einnig greiðist gjald þetta á hverju ári þ.e. við endurnýjun/framlengingu samninga.
5.6. Umsýslugjald.
Þegar umsækjandi staðfestir tilboð um úthlutun húsnæðis, sbr. gr. 5.5., samþykkir hann um leið að greiða umsýslugjald sem er nú kr. 5.000 og greiðist með fyrsta reikningi eftir að leigusamningur hefur verið undirritaður.
5.7. Athugasemdir umsækjanda.
Vilji umsækjandi bera fram kvartanir eða athugasemdir, vegna meðferðar umsóknar eða annarra atriða, skal hann senda skrifstofu BN skriflegt erindi, sbr. gr. 10.2., í reglum þessum.
6. kafli Biðlisti.
6.1. Skráning á biðlista.
Þegar umsókn er samþykkt færist hún sjálfkrafa inn á biðlista, en umsækjandi ber sjálfur ábyrgð á að viðhalda biðlistaskráningu með reglubundinni staðfestingu, sbr. gr. 5.5.
6.1.1. Almennur forgangur á biðlista.
Sá umsækjandi sem efstur er hverju sinni, á viðkomandi biðlista, hefur forgang að húsnæði sem losnar, hafi hann ekki áður hafnað íbúð í sama íbúðaflokki.
6.1.2. Sérstakar félagslegar aðstæður.
Heimilt er að víkja frá röðun á biðlista eða setja nýjan umsækjanda á biðlista ef sérstakar félagslegar aðstæður eru fyrir hendi. Í þeim tilfellum skal liggja til grundvallar úrskurður frá úrskurðarnefnd HR, sjá kafla 10.2.
6.2. Umsóknir um flutning.
Allar umsóknir um flutning innan húsnæðiskerfisins raðast á viðkomandi biðlista.
6.3. Brottfall af biðlista.
Í þriðja sinn sem umsækjandi hafnar tilboði um húsnæði fellur hann út af viðkomandi biðlista.
6.4. Uppfærsla.
Óski umsækjandi ekki eftir skráningu á biðlista, eða hann fellur út af biðlista af einhverjum ástæðum, færast þeir sem neðar eru upp um eitt sæti á viðkomandi biðlista.
7. kafli. Forgangsröðun.
7.1. Forgangsröðun samþykktra umsókna.
Samþykktum umsóknum um húsnæði er raðað í forgangsröð samkvæmt reglum þessa kafla, sbr. þó ákvæði gr. 6.1.2.
Umsóknum um vist á Háskólagörðum skal raða í forgangsröð samkvæmt neðangreindum reglum, að undanskildum ¼ íbúða til stúdenta með lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins (sjá einnig grein 1.1). Hafi umsækjandi sagt upp fyrri úthlutun sinni fer hann ekki í forgang samkvæmt neðangreindu, heldur skal meðhöndla umsóknina sem nýja.
Hafi lögheimili verið flutt af höfuðborgarsvæðinu á síðast liðnum 12 mánuðum fyrir gerð umsóknar, skal kallað eftir staðfestingu á að lögheimili hafi áður verið á þeim stað og búseta á höfuðborgarsvæðinu hafi einungis verið tímabundin vegna náms. Búseta á höfuðborgarsvæðinu telst hins vegar hafa verið varanleg, ef meira en ár er síðan að lögheimili var flutt þangað. Til höfuðborgarsvæðisins teljast Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Seltjarnarnes og Garðabær.
7.1.1. Einstaklingsherbergi.
A: Núverandi íbúar sem sækja um áframhaldandi leigu í sömu íbúð.
B: Umsækjandi sem er í námi við HR.
C: Umsækjandi sem er í aðildarskóla sbr. gr. 1.2.
D: Umsækjandi sem þegar er í íbúð og sækir um flutning í aðra íbúð. (færist í þriðja hvert sæti á biðlistanum)
E: Umsækjandi er í námi en ekki í aðildarskóla sbr. gr. 1.2.
F: Aðrar umsóknir.
7.1.2. Einstaklingsíbúðir.
A: Núverandi íbúar sem sækja um áframhaldandi leigu í sömu íbúð.
B: Umsækjandi sem er í námi við HR.
C: Umsækjandi sem er í aðildarskóla sbr. gr. 1.2.
D: Umsækjandi sem er í íbúð og sækir um flutning í aðra íbúð. (færist í þriðja hvert sæti á biðlistanum)
E: Umsækjandi er í námi en ekki í aðildarskóla sbr. gr. 1.2.
F: Aðrar umsóknir.
7.1.3. Paraíbúðir
A: Núverandi íbúar sem sækja um áframhaldandi leigu í sömu íbúð.
B: Umsækjandi sem er í námi við HR.
C: Umsækjandi sem er í aðildarskóla sbr. gr. 1.2.
D: Umsækjandi sem er í íbúð og sækir um flutning í aðra íbúð. (færist í þriðja hvert sæti á biðlistanum)
E: Umsækjandi er í námi en ekki í aðildarskóla sbr. gr. 1.2.
F: Aðrar umsóknir.
7.1.4. Fjölskylduíbúðir.
Aðeins til úthlutunar til hjóna/sambýlisfólks með barn/börn
A: Núverandi íbúar hjá BN, sem sækja um áframhaldandi leigu í sömu íbúð.
B: Umsækjandi sem er í námi við HR.
C: Umsækjandi er í aðildarskóla sbr. gr. 1.2.
D: Umsækjandi sem er í íbúð og sækir um flutning í aðra íbúð. (færist í þriðja hver sæti á biðlistanum)
E: Umsækjandi í námi en ekki í aðildarskóla sbr. gr. 1.2.
F: Aðrar umsóknir.
8. Kafli. Óskir um flutning innan húsnæðiskerfisins.
8.1. Leigusamningar bundnir við nafn úthlutunarþega.
Leigusamningar eru bundnir við nafn úthlutunarþega og er leigutökum óheimilt að skipta, eða semja um skiptingu, á íbúðum/herbergjum innan húsnæðiskerfisins sín á milli.
8.2. Óskir um flutning.
Óski leigjandi/leigjendur eftir flutningi á milli íbúða/herbergja skal viðkomandi senda inn nýja umsókn og verður umsóknin metin og getur úthlutunaraðili samþykkt flutninginn gegn greiðslu flutningsgjalds. Með umsókn skal leigutaki láta fylgja skýringar/ástæður flutningsóskar.
8.3. Umsókn um flutning samþykkt, ný úthlutun.
Þegar umsókn um flutning er samþykkt og umsækjanda hefur í framhaldinu verið úthlutað húsnæði, skal gera nýjan leigusamning um viðkomandi íbúð og gilda þá reglur 9. kafla, eftir því sem við á.
9. kafli. Eftir úthlutun, sem umsækjandi hefur staðfest.
9.1. Nýr leigutaki, upphaf leigutíma og gildi leigusamnings.
Fái umsækjandi úthlutuðu herbergi eða íbúð er hann ábyrgur fyrir greiðslu leigu frá og með þeirri dagssetningu sem tilgreind er sem upphafsdagur leigutíma í úthlutunartilboði. Þó er gildi leigusamnings háð því að umsækjandi skili inn leigusamningi, sem undirritaður er með fullnægjandi hætti, tryggingu (bankaábyrgð) og staðfestingu á skólavist.
9.2. Leigusamningur.
Fái umsækjandi úthlutað herbergi eða íbúð er honum skylt að undirrita, með fullnægjandi hætti, leigusamning sem honum er látið í té. Leigusamningurinn kveður nánar á um réttindi og skyldur leigutaka og leigusala á leigutímanum.
9.3. Umsýslugjald.
Samhliða greiðslu á fyrsta leigureikningi eftir undirritun nýs leigusamnings greiðir umsækjandi umsýslugjald sbr. gr. 5.6. Umsýslugjald skal einnig greiða við endurúthlutun húsnæðis.
9.4. Greiðsla tryggingar eða afhending bankaábyrgðar.
Áður en umsækjandi skilar undirrituðum leigusamningi skal inna af hendi tryggingarfé eða afhenda frumrit tryggingar, sbr. gr. 9.8.1.
9.5. Lyklar, afhending.
Umsækjendur fá ekki afhenta lykla að leiguhúsnæði nema þeir uppfyllt ákvæði gr. 9.2. - 9.4. innan tilskilins tímafrests.
9.6. Tímafrestur.
Uppfylli umsækjandi ekki ákvæði gr. 9.2. - 9.4. innan 10 daga frá því að hann fékk eintak leigusamnings til undirritunar afhent er litið svo á að hann afturkalli umsókn sína og fellur úthlutun til hans því niður. Húsnæðinu verður því úthlutað til annars umsækjanda.
9.7. Endurúthlutun
9.7.1. Nýr leigusamningur.
Hafi umsækjandi sem býr í húsnæði HR fengið endurúthlutun skal hann skila nýjum leigusamningi undirrituðum innan 10 daga frá því að nýr leigusamningur var afhentur honum.
9.7.2. Endurnýjun tryggingar og greiðsla umsýslugjalds.
Þegar leigusamningi er skilað undirrituðum skal leigutaki jafnframt framvísa endurnýjaðri bankaábyrgð, hafi hann ekki greitt tryggingafé í peningum, og greiða umsýslugjald, sbr. gr. 9.4.
9.7.3. Tímafrestur.
Umsækjanda er skylt að uppfylla ákvæði gr. 9.7.1. og gr. 9.7.2. innan 10 daga frá því nýr leigusamningur var afhentur honum, geri hann það ekki er litið svo á að umsækjandi hafi afturkallað umsókn sína um endurúthlutun og skal hann þá rýma húsnæðið samkvæmt dagsetningu gildandi leigusamnings, enda verður húsnæðinu úthlutað til annars umsækjanda.
9.8.Trygging í reiðufé og/eða ábyrgðayfirlýsing banka.
9.8.1. Trygging í reiðufé.
Tryggingarfé vegna íbúða/herbergja er ígildi þriggja mánaða,- vegna vangoldinnar leigu, þ.m.t. vegna dráttarvaxta og annars kostnaðar sem af vanskilum leiðir, og vegna ófullnægjandi þrifa sem og tjóns sem á hinu leigða kann að verða á leigutímanum. BN varðveitir tryggingafé í samræmi við ákvæði leigusamnings og laga nr. 36/1994.
Tryggingafé er endurgreitt í lok leigutíma með vöxtum í samræmi við húsaleigulög nr. 36/1994, séu allir reikningar greiddir og engar skemmdir hafi orðið á húsnæðinu eða fylgihlutum þess af hálfu leigutaka.
9.8.2. Ábyrgðayfirlýsing banka.
Umsækjanda er heimilt að kaupa tryggingu hjá viðskiptabanka umsækjanda. Fjárhæðir ábyrgðartrygginga skulu vera þær sömu og gr. 9.8.1. kveður á um.
9.8.3. Niðurfelling bankaábyrgðar, skil á tryggingarfé.
Bankaábyrgð fellur ekki niður fyrr en eftir að úttekt á leiguhúsnæði, við lok leigutíma, hefur farið fram og niðurstaða þeirrar úttektar sé að eigi sé þörf á að ganga að bankatryggingu vegna tjóns á hinu leigða eða vanhalda í þrifum og ljóst er að leigutaki er í skilum.
9.9. Afhending húsnæðis við upphaf leigutíma.
9.9.1. Afhending húsnæðis.
Leigutaka er afhent húsnæðið á fyrsta degi leigutímabils, enda hafi leigutaki staðið við skyldur sínar samkvæmt gr. 9.2. - 9.4.
9.9.2. Smávægilegur afhendingardráttur.
Ef nauðsynlegar viðgerðir eða endurbætur fara fram á húsnæðinu er heimilt, þrátt fyrir ákvæði gr. 9.9.1., að draga afhendingu í allt að 5 daga, án þess að afsláttur af leigugjaldi verði veittur. Tilkynna skal leigutaka væntanlegan drátt á afhendingu svo fljótt sem auðið er.
9.9.3. Lengri afhendingardráttur.
Dragist afhending lengur en 5 daga vegna aðstæðna sem rekja má til leigusala er veittur afsláttur af leigugjaldi fyrir þann tíma sem afhendingardráttur varir umfram 5 daga.
9.9.4. Skil á húsnæði.
Leigjandi skal ætíð skila húsnæði sínu útteknu og frágengnu ekki síðar en kl. 10.00 á skiladegi eða samkvæmt samkomulagi við BN. Dragi leigjandi skil húsnæðis fram yfir áður ákveðna tímasetningu skal hann greiða 3 daga leigu fyrir hvern dag sem skilin dragast. Skili íbúi húsnæði illa þrifnu greiðir leigjandi kostnað við þrif íbúðarinnar í samráði við verðskrá BN.
9.10. Framsal leiguréttar óheimilt.
Leigusamningar eru bundnir við nöfn þeirra sem fengu viðkomandi húsnæði úthlutað. Leigutökum er með öllu óheimilt að framselja leigurétt sinn, í heild eða að hluta hvort sem slíkt er gegn gjaldi eður ei. M.a. er leigutökum algerlega óheimilt að skipta eða semja um skipti á herbergjum/íbúðum innbyrðis.
9.10.1. Skiptinám.
Hægt er að sækja um undanþágu á framleigu vegna skiptináms til skrifstofu BN, ef leigutaki deilir ekki húsnæði með öðrum stúdentum. Skal leigutaki senda inn formlega ósk um leyfi til að framleigja til annars nemanda við HR eða aðildarskóla. Leigutaki tekur jafnframt fram hvort um eitt til tvö misseri er að ræða. Þó aldrei lengur en tvö misseri. Leigutaki er ekki undanskilinn einingaskilyrðum meðan á skiptinámi stendur.
9.11. Um leigusamninga BN.
9.11.1. Bindandi, tímabundnir leigusamningar.
Leigusamningar um húsnæðið eru ætíð tímabundnir, þ.e. gerðir til tiltekins tímabils sem tilgreint er í leigusamningi og eru bindandi fyrir báða aðila út þann tíma, enda vanefni hvorugur samningsskyldur sínar.
9.11.2. Uppsagnir.
Í sérstökum tilvikum er hægt að fallast á óskir leigutaka um að losna frá leigusamningi áður en leigutíma lýkur. Uppsagnarfrestur, ef fallist er á ósk leigutaka, er að jafnaði þrír mánuðir frá næstu mánaðarmótum að telja, eftir að uppsögn hefur verið tilkynnt.
9.11.3. Verulegar vanefndir heimila riftun.
Vanefni aðili leigusamnings samningsskyldur sínar verulega er gagnaðila hans heimilt að rifta samningi og er leigutaka þá gert að rýma hið leigða án tafa.
9.11.4. Nánari reglur.
Nánar er kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila í leigusamningi.
10. kafli. Ýmis ákvæði.
10.1. Trúnaður.
Farið skal með umsóknir og upplýsingar sem þeim fylgja sem trúnaðarmál og hvílir þagnarskylda á stjórnar- og starfsmönnum.
10.2. Athugasemdir og ágreiningsmál.
Hafi umsækjandi athugasemdir við úthlutun eða vegna annarra atriða skal hann senda BN athugasemd innan 7 daga frá þeim degi sem atvikið, sem hann vill gera athugasemd við átti sér stað, eða viðkomandi varð um það kunnugt. Þeirri athugasemd skal komið til Úrskurðarnefndar HR. Í nefndinni sitja 4 aðilar, 1 frá stjórnendateymi HR, 1 frá alþjóðaskrifstofu HR, 1 frá námsráðgjöf HR og 1 frá nemendum HR. Nefndin skal taka slíkar athugasemdir til afgreiðslu á fyrsta fundi sem upp ber eftir að athugasemd umsækjanda barst BN. Nefndin sker úr öllum ágreiningsmálum sem upp koma varðandi umsóknir, úthlutanir og önnur atriði er varða umsækjendur, leigutaka og skrifstofu BN. Niðurstaða hennar er endanleg.
10.3. Endurskoðun úthlutunarreglna.
Úthlutunarreglur HR eru samþykktar af stjórn HR í samræmi við samþykktir félagsins.
Þannig samþykkt á stjórnarfundi HR.